Aðalfundur SUNN 2025 27.október kl.20 í Kakalaskála í Skagafirði Fundurinn hefst á stuttri kynningu á sögu og starfi í Kakalaskála af hálfu Sigurðar Hansen staðarhaldara.
Kosning fundarstjóra og fundarritara Rakel Hinriksdóttir býður gesti velkomna og leggur til að Sóley Björk Stefánsdóttir verði fundarstjóri og Harpa Barkardóttir fundarritari. Það er einróma samþykkt.
Skýrsla stjórnar lögð fram Formaður Rakel Hinriksdóttir les skýrslu stjórnar, og Harpa Barkardóttir fer yfir vinnuna á bak við átakið « Verndum Eyjafjörð », baráttu gegn áformum um sjókvíaeldi í Eyjafirði. Skýrsla formanns 2025 “Velkomin á aðalfund SUNN, sem er haldinn hérna í Kakalaskála í Skagafirði. Árið hefur verið heldur viðburðarríkt hjá náttúruverndarsamtökum, ekki bara hjá okkur, en í kjölfar nýrrar ríkisstjórnar hefur verið blásið í segl orkuöflunar og skyndilega á að bjarga MEINTUM yfirvofandi orkuskorti, á mettíma. Náttúruverndin missti rödd sína á þingi, og til þess að bregðast við því höfum við tekið höndum saman enn þéttar með öðrum samtökum á landsvísu og myndað breiðfylkingu náttúruverndar á Íslandi. Landvernd heldur utan um samstarfið, og okkur þykir vænt um að hafa fulltrúa og vini okkar frá þeim hérna í kvöld. Takk Þorgerður, formaður, Björg Eva, framkvæmdastjóri og ? Mig langar að stikla aðeins yfir það sem við í SUNN höfum verið að bralla á þessu viðburðarríka ári. Fljótlega eftir aðalfund síðasta árs, buðum við til haustlitagöngu í Kjarnaskógi í samstarfi við Skógræktarfélag Eyfirðinga 6. október. Þar fylgdum við eftir skemmtilegri náttúru- og fuglaskoðunargöngu í Krossanesborgum um vorið. Mætingin í Kjarna var stórkostleg, rúmlega 100 manns mættu. Ingólfur Jóhannsson leiddi gönguna, enda þekkir hann skóginn eins og lófann á sér, og var með allskyns fræðslu á takteinunum. Bergsteinn Þórsson, Beggi, græjaði dýrindis skógarkaffi á eldstæði í lok göngunnar og við í SUNN buðum upp á heitt súkkulaði. Í nóvember aðstoðuðum við Icelandic Wildlife Fund við að bjóða til bíósýningar á heimildamyndinni Árnar þagna, sem fjallar um áhrif sjókvíaeldis á laxveiði í Noregi. Á eftir sýningunni voru pallborðsumræður frambjóðenda á dagskrá, en þegar þarna var komið sögu, var kosningabaráttan á fullu. Bíósalur Sambíóanna var þéttsetinn, og líflegar umræður áttu sér stað. Við vorum aldeilis ekki búin að afgreiða sjókvíaeldið þarna, en það átti eftir að detta hressilega inn á borð hjá okkur aftur þegar leið á árið. Við tókum líka virkan þátt í baráttu Seyðfirðinga gegn sjókvíaeldi í firðinum þeirra, með því að skrifa undir áskorun til stjórnvalda ásamt öðrum náttúruverndarsamtökum, og með því að taka upp orðsendingu fyrir herferð þeirra á samfélagsmiðlum. Erlendur Steinar, stjórnarmaður í SUNN, fór suður snemma síðasta vetur, til þess að sækja samráðsfund náttúruverndarsamtaka, sem haldinn var í borginni. Hann merkti mikinn samtakamátt og greinilegt að fólk finnur til ábyrgðar, nú þegar rödd náttúruverndar er þögnuð á Alþingi Íslendinga.
Apríl buðum við til Náttúruverndarstefnu í Leifshúsum í Eyjafirði ásamt Landvernd. Þar var ætlunin að kynna starf beggja samtaka og bjóða upp á samtal um áherslur og stefnumótun í náttúruvernd á Íslandi. Mætingin var góð og útbúið var stórt hringborð þar sem fólk viðraði sínar skoðanir og áhyggjur. Fundurinn var liður í því að auka samtal og stilla saman strengi þvert á samtök og talsmenn náttúrunnar um allt land. Eftir góða, skemmtilega og fræðandi viðburði í Krossanesborgum og Kjarnaskógi árið áður, skelltum við okkur í náttúrugöngu á Skagaströnd 17. Maí. Farið var í gönguferð um friðlandið í Spákonufellshöfða, en við skoðuðum fugla, plöntur og áhugaverða jarðfræði undir leiðsögn Einars Þorleifssonar náttúrufræðings sem er búsettur á Skagaströnd. Mætingin var góð og veðrið var eins og best verður á kosið! Fljótlega eftir þetta fengum við veður af því, að áform um sjókvíaeldi í Eyjafirði væru að rumska aftur, og helltum okkur út í að bregðast hratt og örugglega við því. Harpa Barkardóttir, stjórnarkona og fyrrum formaður, tók forystuna í því máli og ég vil biðja hana að segja örlítið frá því núna. “SUNN fékk veður af því snemma sumars að atvinnuvegaráðherra hafi talað um að láta framkvæma burðarþolsmat fyrir Eyjafjörð á málþingi um fiskeldi 4.júní síðastliðinn. Það felst í því að meta hversu marga tugi þúsund tonna af eldisfiski í opnum sjókvíum Eyjafjörður myndi þola skv. Hafrannsóknarstofnun. Í kjölfar slíkrar ákvörðunar og eftir að niðurstöður liggja fyrir gera lög ráð fyrir að útboðsferli hefjist á leyfisveitingum. Í því er tekið tillit til fjármagns og reynslu fyrirtækja og enginn veit fyrirfram hvaða fyrirtæki hljóta leyfi. Þess ber að geta að 2.október síðastliðinn sendi stór hópur náttúruverndarsamtaka frá sér áskorun til Alþingis um að láta fella á brott lagaákvæði um burðarþolsmat sem hefur síðan 2014 gert sjókvíaeldisfyrirtækjum kleift að komast undan lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda frá 2004. Allt skólp fyrirtækjanna rennur óhindrað í sjóinn. Lífrænn úrgangur, fóðurleifar, örplast, lyf, skordýraeitur og þungmálmar. Þetta raskar lífríkinu í hafinu, það staðfesta rannsóknir. Okkur brá í brún að heyra af orðum ráðherra því ekki eru nema 5 ár síðan síðast var talað um að friða Eyjafjörð fyrir fiskeldi í opnum sjókvíum þegar sveitarstjórnir á svæðinu skoruðu á þáverandi ráðherra þar að lútandi árið 2020. Þá var óskað eftir greinargerð frá Hafrannsóknarstofnun sem komst að þeirri niðurstöðu að tilefni væri til að vernda Eyjafjörð fyrir slíkri starfsemi. Þess má geta að haustið 2024 var framkvæmd skoðanakönnun um afstöðu íbúa á svæðinu til fiskeldis í opnum sjókvíum á Norðurlandi og voru niðurstöður afgerandi neikvæðar. 60% neikvæð, 30% hvorki né og 10% jákvæð. Lögfræðiálit um stöðu sveitarfélaga m.t.t. burðarþolsmats Eyjafjarðar var unnið fyrir nokkur samtök 9.júní síðastliðinn og það varpar ljósi á hversu takmörkuð úrræði sveitarfélög hafa til að hafa áhrif á ákvarðanatöku um fiskeldi í opnun sjókvíum. Eftir að ráðherra hefur ákveðið burðarþolsmat og það hefur verið framkvæmt getur opnast fyrir umsóknarferli um leyfisveitingar sem sveitarfélög hafa í raun enga lagalega aðkomu að. Ráherra ber engin lagaleg skylda til að taka tillit til sveitarfélaga í þessu ferli skv. núgildandi lögum. Á þessu ári átti að hefjast vinna við haf- og strandsvæðaskipulag (ég veit ekki hvar það stendur) en það væri mikið nær lagi að ákvarðanir um fiskeldi færu inn í slíkt ferli sem gerir ráð fyrir miklu samráði bæði við íbúa og á milli stjórnsýslustiga. SUNN hafði samband við allar sveitarstjórnir á svæðinu við Eyjafjörð í júní og vakti máls á stöðunni sem upp var komin og sendu fyrrnefnt lögfræðiálit til allra kjörinna fulltrúa á svæðinu. Við fórum þess á leit að fjallað yrði um málið og afstaða tekin vegna þeirrar stöðu sem upp var komin og spurðum hvernig sveitarfélögin hyggðust gæta hagsmuna sinna íbúa í þessu máli, en það er þeirra frumskylda lögum samkvæmt. Í kjölfarið var ráðist í að vekja duglega athygli á okkar málstað og vorum við nokkuð sýnileg í fjölmiðlum um tíma og sendum frá okkur efni á samfélagsmiðlum sem vakti þó nokkra athygli. … Við tókum upp stutt myndbönd af íbúum á svæðinu sem lýstu sig andsnúna fyrirhuguðu sjókvíaeldi og hófum undirskriftarsöfnun á netinu. Undirskriftarsöfnun gekk ágætilega til að byrja með en ekki eins vel og við höfðum óskað okkur og eigum við inni átak í því að safna enn fleiri undirskriftum ef þurfa þykir. Þess ber að geta að það var gert með öflugum samstarfsaðilum sem stóðu dyggilega og faglega á bak við okkur í að koma því á koppinn. Kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir stuðninginn. Í ágúst síðastliðinn höfðum við á ný sambandi við alla kjörna fulltrúa á svæðinu og vöktum athygli á því að von er á nýju lagafrumvarpi um fiskeldi þar sem dýrmætt tækifæri skapast til að skora á stjórnvöld að setja Eyjafjörð á lista friðunarsvæða, eins og gert hafði verið í fyrri útgáfu þessa lagafrumvarps sem ekki hafði náð fram að ganga. Við biðluðum til þeirra um að standa með okkur í að vernda fjörðinn og lífríki hans sem er undirstaða svo margra atvinnugreina á svæðinu. Skv þingmálaskrá er von á að téð lagafrumvarp verði tekið fyrir í febrúar. Við áttum von á því í samráðsgátt í september en það hefur ekki bólað á því enn.” Lengi hefur verið háð barátta um það, að fá að keyra í gegn um Vonarskarð – en akstur um skarðið var bannaður í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs árið 2013 og svæðið skilgreint sem göngusvæði. Ýmsir aðilar hafa verið ósáttir með það síðan þá, en við í SUNN höfum stutt lítil samtök, Skrauta, sem voru stofnuð bara til þess eins að vernda Vonarskarð áfram. Það hryggir mig verulega að segja, að við höfðum ekki erindi sem erfiði, og í síðustu viku skrifaði ráðherra undir breytingartillögu sem heimilar akstur um skarðið frá 1.september ár hvert næstu fimm árin til reynslu. Annar af stofnendum Skrauta er stjórnarkona í SUNN, Þuríður Helga Kristjánsdóttir, en ég vil að það komi fram að samtökin gerðu allt sem í þeirra valdi stóð og eiga hrós skilið. Ég og Harpa mættum svo fyrir hönd SUNN á Umhverfisþing í Hörpu um miðjan september. Við vöktum athygli fyrir einstaklega fallegan klæðnað, en við vorum auðvitað í Verndum Eyjafjörð bolunum okkar og létum engan efast um það, hvar hugur okkar lægi þegar kemur að hagsmunum náttúrunnar. Þingið var í tvo daga, þar voru erindi, pallborð og vinnufundir, en allt var það mjög fróðlegt. Jóhann Páll, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra ávarpaði fundinn og talaði meðal annars um það, hve framarlega við stöndum á Íslandi, vegna þess að við höfum þetta frábæra stjórntæki – rammaáætlun – til þess að halda utan um það skipulega, hvaða svæði við nýtum og hver við verndum. Það var áhugavert að heyra það, vegna þess að rétt fyrir fundinn hafði Jóhann lagt fram frumvarp þar sem hann lagði til að færa virkjunarkosti í Héraðsvötnum í biðflokk – alveg kengöfugt við niðurstöður faghóps Rammaáætlunar. Þar voru virkjanakostir í Héraðsvötnum metnir með hæsta verndargildið af öllum sem voru til athugunar. Undarlegt að stæra sig af stjórntæki sem maður nýtir svo bara eftir hentugleika. En við höfum svarað því strax, hver okkar hugur er í þessu máli – og ég skrifaði grein um verndun Héraðsvatna sem birtist á Vísi og í Feyki hér í Skagafirði. Svo tókum við þátt í fundi sem Landvernd skipulagði um Rammaáætlun og áhyggjur náttúruverndarsamtaka af þeirri vegferð sem hún er á. Við ætlum ekki að taka því þegjandi, að þetta eina haldreipi sem við höfum – þar sem fagfólk á sviði náttúruvísinda er í aðalhlutverki við að forgangsraða virkjunarkostum á hlutlausan hátt – njóti ekki virðingar ráðamanna. Einnig skrifaði ég hugvekju fyrir skemmstu, sem bar heitið ‘Að fara í stríð við sjálfan sig’, sem var birt á Vísi og í síðasta Bændablaði. Vegna þess að við megum ekki gleyma einum af máttarstólpum SUNN, sem var hugsjón stofnandans Helga Hallgrímssonar árið 1970, þegar samtökin litu dagsins ljós – en það er fræðsla. Að stuðla að breyttu hugarfari almennings gagnvart náttúrunni. Mig langar að vitna í Helga sjálfan, en hann hélt utan um útgáfu Týlis, tímarits um náttúrufræði og náttúruvernd, sem kom fyrst út árið sem SUNN var stofnað – 1970. – Sjá mynd neðst
Bryndís Fjóla Pétursdóttir, hættir í stjórn SUNN eftir þennan fund, og þökkum við henni innilega fyrir starfið með samtökunum. Í sumar hitti Bryndís áðurnefndan Helga Hallgrímsson, og afhenti honum Verndum Eyjafjörð bol og skilaði til hans kveðju frá okkur og þakklæti fyrir hans ómetanlega framlags til náttúrurannsókna og verndar. “
Reikningar lagðir fram til samþykktar Gjaldkeri Þuríður Helga Kristjánsdóttir er ekki viðstödd en en nokkur eintök ársreiknings látin gang um salin. Það var tekið eftir því hversu lág útgjöldin voru sem þótt varpa ljósi á að samtökin séu byggð á sjálfboðavinnu mestmegnis. Reikningar einróma samþykktir.
Ákvörðun félagsgjalds Samþykkt að halda árgjaldi óbreyttu í 2500kr.
Kosning stjórnar Í framboði til formanns er Rakel Hinriksdóttir og er hún sjálfkjörin. Í framboði til tveggja ára í stjórn eru Sævar Þór Halldórsson og Þuríður Helga Kristjánsdóttir og eru sjálfkjörin. Í framboði í varastjórn til eins árs eru Einar Friðleifsson og Nína Ólafsdóttir og eru sjálfkjörin. Bryndís Fjóla Pétursdóttir og Erlendur Steinar Friðriksson stíga út úr stjórn sem varamenn.
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga Í framboði eru Þóroddur Friðrik Þóroddsson og Einar Brynjólfsson og eru sjálfkjörnir.
Önnur mál Engar spurningar Aðrir dagskrárliðir:
Nína Ólafsdóttir kynnir og les úr nýútkominni bók sinni « Þú sem ert á jörðu » við góðar viðtökur.
Þrír fulltrúar Landverndar gerðu sér ferð í Skagafjörð til að vera viðstaddir aðalfund SUNN. Þorgerður María Þorbjarnardóttir formaður stjórnar Landverndar kemur í pontu. Hún segir m.a. frá þeim gleðifregnum að Landvernd stefni á að halda næsta aðalfund á Norðurlandi á vormánuðum. Hún segir einnig lauslega frá fundi um stöðu rammaáætlunar sem Landvernd hélt í Reykjavík á 18.október síðastliðinn. Hún viðrar hugmyndir um að skapa aðra nálgun þar sem skilgreind væru sérstök verndarsvæði á landinu. Ragnhildur Katla Jónsdóttir upplýsingafulltrúi Landverndar fjallar um mikilvægi sýnileikans í náttúruvernd. Segir frá nægjusömum Nóvember og hvetur gesti til að hafa samband ef þeir luma á hugmyndum um samstarf sem mætti koma til leiða. Nóvember er orðinn neysluríkasti mánuðurinn, black friday, singles day, cyber monday og jólainnkaup að hefjast og ekki veitir af að standa fyrir vitundarvakningu um að besti afslátturinn felst í því að kaupa ekki neitt og hafa í hávegum gildi nægjusemi og minna á mikilvægi hennar. Björg Eva Erlendsdóttir fjallar um aukið samstarf Landverndar við sérfræðinga sem finna ekki rödd sinni farveg því þeir eru bundnir af skyldum eða ábyrgð tengdum störfum eða stöðum sínum. Það er að aukast tilfinnanlega. Einnig er samstarf milli náttúruverndarsamtaka þvert um landið að aukast. Hún segir frá yfirlýsingu sem er í vinnslu varðandi lagabreytingar sem heimila tilraunaakstur í Vonarskarði og kæru henni tengdri. Hún minnir á að frestur til að skila inn umsögnum um lagafrumvarpi um að færa Héraðsvötn úr verndarflokki í biðflokk rennur út 31.október. Eftir fundardagskrá skapast almennt samtal um virkjunarmál í Skagafirði þar sem bæði íbúar og aðkomnir viðra skoðanir sínar og farið er lauslega yfir söguna og stöðuna sem upp er komin nú þegar enn á ný er farið að ræða virkjunarhugmyndir í Héraðsvötnum þvert á niðurstöður faghópa rammaáætlunar sem gefa fljótunum mikið verndargildi og skipa þeim í verndarflokk. Öll vinna þeirra er nú í uppnámi og fundargestir sammála um að afar mikilvægt sé að sýna mikla andstöðu í þessu máli. Fundi slitið kl.22.15 Fundargerð ritaði Harpa Barkardóttir