Menu
Tölvupóstur:sunn@sunn.is

Umdeild virkjun í Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss nálægt því að fá framkvæmdaleyfi

Tengill á undirsíðu með upplýsingum um athugasemdir vegna aðalskipulagsbreytinga

Hvað er Einbúavirkjun

Áformuð virkjun yrði í Skjálfandafljóti, um 7 kílómetrum ofan Goðafoss, en fossinn var friðlýstur í júní 2020. Aldeyjarfoss, eitt af helstu kennileitum Norðurlands, er ofar í Skjálfandafljóti og liggur vegurinn frá Goðafossi að Aldeyjarfossi í gegnum fyrirhugað iðnaðarsvæði. Virkjunin, sem er rennslisvirkjun, tekur Skjálfandafljót úr sínum náttúrulega farvegi á 2,6 kílómetra kafla með stíflu þvert yfir fljótið. Á þeim kafla mun farvegurinn standa nær vatnslaus við lágmarksrennsli að vetri og flæðir þá ekkert vatn yfir stífluna. 

Verkefnið um Einbúavirkjun er í eigu Einbúavirkjunar ehf., einkahlutafélags í eigu Hilmars Ágústssonar og Kristjáns Gunnars Ríkharðssonar  en þeir eru báðir skráðir til heimilis í Kópavogi. Verkefnið var fyrst kynnt fyrir fulltrúum Þingeyjarsveitar í nóvember 2017 af fulltrúum framkvæmdaraðila ásamt talsmanni þeirra, Kristjáni L. Möller. Framkvæmdin hefur verið umhverfismetin.

Goðafoss

Ekki heimilt skv. Skipulagsstofnun

Í áliti Skipulagsstofnunar frá júlí 2020 segir að framkvæmdir muni raska eldhrauni sem nýtur sérstakrar verndar skv. lögum og slíkt sé óheimilt nema brýnir almannahagsmunir krefji. Þetta telur stofnunin að ekki hafi verið sýnt fram á. Í sama streng taka náttúruverndarnefnd Þingeyinga, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun. SUNN, Samtök um náttúrvernd á Norðurlandi, hafa ekki séð brýnum almannahagsmunum haldið á lofti, heldur virðast sérhagsmunir ríkjandi. Þar af leiðandi er ekki grundvöllur fyrir veitingu framkvæmdaleyfis virkjunarinnar.

Aldeyjarfoss

Mikil neikvæð áhrif og lítil jákvæð

Virkjunin hefur margvísleg neikvæð áhrif en mjög óljós jákvæð samfélagsleg áhrif. Bárðardalshraun teljast til nútíma eldhrauna og njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. grein laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Veitumannvirki og stöðvarhús virkjunarinnar verða grafin í gegnum hraunið. Fráveitugöng munu liggja að einhverju eða öllu leyti í nútímahrauni. Gröftur, sprenging og bygging virkjunarmannvirkja mun valda varanlegu raski á hrauninu á framkvæmdasvæðinu


Uppi eru áhyggjur af klofningi í nærsamfélaginu vegna áforma um virkjanir í Bárðardal, eins og kom fram í rannsókn  Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri fyrir umhverfisráðuneytið 2019 og áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Svartárvirkjunar í Bárðardal, sem kom út 30. desember sl. Virkjunaráformin munu enn auka á sárindi og togstreitu milli fólks í jaðarsamfélagi Bárðdæla sem á enn langt í land með að vinna úr þeim erfiðleikum sem Svartárdeilan hefur valdið.


Einbúavirkjun hefði neikvæð áhrif á dýralíf, svo sem á nálægt fálkaóðal, aðra fugla og fiskgengd. Rannsóknum á áhrifum á straumandarstofninn er ábótavant skv. Náttúrufræðistofnun Íslands. Umhverfisstofnun bendir á að minna rennsli minnki töluvert getu vatnsfallsins til að bera framburð. Ljóst sé því að þann aur sem fljótið flytur að stíflu virkjunarinnar nái það ekki að bera neðan hennar. Náttúrufræðistofnun telur að virkjunin muni að öllum líkindum hafa áhrif á fljótið allt til sjávar.

Ekki fyrir Bárðdælinga


Hugmynd framkvæmdaraðila í matsskýrslu er að tengja virkjunina inn á Kröflulínu 1 með óbyggðu tengivirki Landsnets. Raforka frá virkjuninn færi því einfaldlega inn á flutningskerfið og virkjunin styrkir ekki afhendingaröryggi rafmagns til íbúa á svæðinu.

Verðmætin sem eru í hættu

Á fyrirhuguðu virkjanasvæði er mikil fallhæð samhliða því að árfarvegurinn þrengist. Þar hefur Skjálfandafljót skapað einstakar og fagrar náttúrumyndanir, sem eru mótaðar af samspili nútímahrauna og jökulfljótsins, eins og raunin er um hina stærri fossa í fljótinu.

Óraskað Skjálfandafljót og samspil þess við Bárðardalshraun myndar einstakt náttúruundur á heimsvísu. Lengi hefur verið unnið að friðlýsingu Skjálfandafljóts og núverandi ríkisstjórn stendur að þingsályktunartillögu um friðlýsingu fljótsins með 3. áfanga rammaáætlunar. Ef af Einbúavirkjun verður, mun hún verða fyrsta virkjun í sjálfu Skjálfandafljóti en farvegur Skjálfandafljóts er nánast óraskaður af manna völdum frá upptökum og allt til sjávar, enn sem komið er. 

Í Rammaáætlun 3 lenda allir virkjunarkostir í Skjálfandafljóti í verndarflokki (Fljótshnúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjun A, B og C) og lendir fljótið í 3. sæti í verðmætamati vatnsfalla á landinu öllu. Þar sem Einbúavirkjun er sögð verða með 9,8 MW afl stendur hún utan rammaáætlunar, sem miðast við 10 MW, þrátt fyrir þau miklu neikvæðu áhrif sem hún hefði í för með sér. Skipulagsstofnun hefur bent á þennan ágalla á regluverkinu og samlegðaráhrif af stærri virkjunum.

Virkjunun eykur losun gróðurhúsalofttegunda (GHL)

Í tillögu að deiliskipulagi vegna Einbúavirkjunar er því haldið fram að uppbygging Einbúavirkjunar hafi verulega jákvæð áhrif á loftslagsmál, þ.e. sé í samræmi og styðji við  stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum með framleiðslu á sjálfbærri orku. Hins vegar tekur sú fullyrðing ekki tillit til losunarinnar frá framkvæmdinni sjálfri eða viðhalds virkjunarinnar. Taka þarf með í reikninginn að jarðraski, skurðgreftri, byggingu stöðvarhúss og lagningu vega fylgir losun á GHL. Sú losun GHL er umfram losun og hrein viðbót inn í loftslagsbókhaldið þar sem ekki er skilgreind þörf fyrir raforkuna sem virkjunin myndi framleiða. Ekkert liggur fyrir um að raforkan yrði nýtt á umhverfisvænan hátt enda yrði hún einfaldlega seld hæstbjóðanda á hverjum tíma, hvar sem er á landinu. Næg raforka er til, enda framleiðir Ísland nú þegar meiri orku en þörf er á fyrir fyrirhuguð orkuskipti, og vandamál tengd flutningi orku til Akureyrar leysast með með lagningu Hólasandslínu 3 frá Kröflu til Akureyrar.

Staðsetning áætlaðar vikjunar

Staða máls

Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi halda málþing um verndun Skjálfandafljóts þann 11. September 2021 að Kiðagili í Bárðardal. Umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson heldur erindi um friðun og verndun náttúrulegra verðmæta í víðu samhengi með sérstaka áherslu á Skjálfandafljót. Arnór Benóníson oddviti Þingeyjarsveitar fjallar um áskoranir sem sem sveitarstjórnir standa frammi fyrir í virkjanamálum.
Harpa Barkardóttir, formaður SUNN, heldur hugvekju um verndun Skjálfandafjlóts

Málþinginu er ætlað að varpa ljósi á þau verðmæti sem felast í náttúruvernd.

Sveitarstjórn stóð fyrir fundi með landeigendum að Skjálfandafljóti þann 19. ágúst 2021, sjá hér. Sveitarstjórn fundaði með virkjanaaðila nýlega um málið og áformar að funda og mögulega álykta um málið á sveitarstjórnarfundi þann 9. september 2021.

Í júní 2021 samþykktu íbúar Skútustaðahrepps (Mývatnssveit) og Þingeyjarsveitar sameiningu sveitarfélaganna. Í maí 2022 mun verða kosið til sveitastjórnar sameinaðs sveitafélags og mun ný sveitastjórn þá taka við sameinuðu sveitafélagi.

Þann 11. febrúar 2021 samþykkti sveitarstjórn að vísa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022 til heildarendurskoðunar á Aðalskipulagi Þingeyjarsveitarveitar. SUNN hvetur samt sem áður fólk til að senda inn athugasemdir sem munu þá vera teknar til greina fari málið aftur í skipulagsferli.

Sjá grein um ákvörðun sveitarstjórnar hér.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hélt kynningarfund fimmtudaginn 28. janúar vegna áforma um svokallaða Einbúavirkjun, 9,8 MW virkjun í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Þá verða tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og tillaga að deiliskipulagi auglýstar með athugasemdafresti. Taki skipulagsbreytingin gildi, gæti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi, mögulega á fyrri hluta árs 2021. Sveitarstjórn er þó ekki einhuga í málinu.

Umfjöllun um kynningarfund Þingeyjarsveitar má finna hér Einbúavirkjun ekki rædd því margir enn með „óbragð“ eftir Svartárvirkjunardeilu (kjarninn.is). Fundinn sjálfann má finna á facebook síðu Þingeyjarsveitar.