Menu
Tölvupóstur:sunn@sunn.is

Hvatning til að skila athugsemdum

SUNN hvetur fólk til að skila athugasemdum inn hið fyrsta við fyrirhugað skipulag um Einbúavirkjun, en síðasti skiladagur athugasemda er 18. febrúar 2021. Þeim skal skilað með tölvupósti til skipulagsfulltrúa Þingeyjarsveitar  netfangið atli@skutustadahreppur.is 

Athugasemdir mega vera ítarlegar eða einfaldar, allt eftir aðstæðum. SUNN mun skila inn ítarlegri athugasemd en mikilvægt er að athugasemdir komi einnig beint frá almenningi. Engin takmörk eru á því hverjir mega skila inn athugasemdum og engin kvöð um ákveðna búsetu. Textinn þarf ekki að vera “lögfræðilegur” en gott að einhver hluti textans komi frá þeim sem skrifar undir og athugasemdir séu ekki fullkomlega samhljóða (copy-paste). Það er alveg eðlilegt að sömu ábendingar komi fram í athugasemdum frá mismunandi aðilum.

Dæmi um einfalda athugasemd gæti verið svohljóðandi:

Ég tel ekki að virkjun Skjálfandafljóts muni styrkja ferðamennsku og aðra náttúrusækna starfsemi á svæðinu og því hvet ég sveitarstjórn Þingeyjarsveitar til að falla frá áformum um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.

Betra er að skila inn stuttri og skýrri athugasemd heldur en veikri og langri. Guðmundur Hörður hefur gert ítarlega grein um orkuþörfina með góðum punktum. 

Hér að neðan eru nokkrir punktar sem má nota, af nógu er að taka 🙂

 • Virkjun í Skjálfandafljóti mun veikja vaxtarmöguleika ferðaþjónustu og náttúrutengdrar starfsemi á öllu svæðinu. Líklegt er að þegar erlendir áhugamenn muni slá inn leitarorðum á borð við “diamond circle”, “godafoss” eða “myvatn area” muni umfangsmiklir skurðir virkjunarinnar og vatnslítill farvegur fljótsins á 2.6 km bili koma upp í myndaleit og mögulega draga verulega úr áhuga á að heimsækja svæðið.

 • Engir opinberir útreikningar um beinar og fastar tekjur sveitarfélagsins liggja fyrir, en af samanburði við sambærilegar virkjanir yrðu fasteignagjöld af stöðvarhúsi minni en sem svarar verði tveggja kaffibolla á íbúa á ári.

 • Stærstur hluti af auðlindarentu virkjunarinnar rynni til aðila (einkahlutafélagið Litluvellir ehf.) sem hafa heimilisfesti utan sveitarfélagsins.

 • Ólíklegt er að þeir verktakar sem taka að sér uppbyggingu virkjunarinnar muni koma úr dalnum eða sveitarfélaginu.

 • Gríðarleg náttúruspjöll munu fylgja virkjuninni, og henni fylgja miklir skurðir sem verða grafnir í nútímahraun.

 • Miklar óafturkræfar skemmdir verða unnar á nútímahraunum sem njóta verndar að lögum. Engin raunveruleg jarðfræðirannsókn hefur þó farið fram.

 • Virkjuninn mun taka 47 rúmmetra rennsli úr Skjálfandafljóti, sem þýðir að mjög mikil sjónræn áhrif verða á fljótið á þessum 2.6 km kafla.

 • Áætluð virkjun myndi auka losun gróðurhúsalofttegunda. Ef tekið er með í reikninginn að jarðrask, skurðgröftur, byggingu stöðvarhúss og lagningu vega og fleira fylgir losun á gróðurhúsalofttegundum. Sú losun er umfram losun og hrein viðbót inn í loftslagsbókhaldið þar sem ekki er skilgreind þörf fyrir raforkuna sem virkjunin myndi framleiða.

 • Í núverandi aðalskipulagi stendur að sveitarfélagið sé á  á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót. Nýhafin er heildarendurskoðun núgildandi aðalskipulags, í tengslum við sameiningarviðræður við Skútustaðahrepp. Nær væri að taka umræðu um hvort heimila eigi virkjun fljótsins í stærra samhengi í stað þessu að tengja þá ákvörðun við skipulagsbreytingar vegna Einbúavirkjunar.

 • Krapasöfnun er algengt vandamál í rennslisvirkjunum á Norðurlandi og hefur valdið ýmiskonar vandkvæðum, til dæmis við Laxá. Engin gögn liggja fyrir um áhrif af krapasöfnun við virkjunina og möguleg áhrif á náttúrulegt rennsli fljótsins fyrir neðan áætlaða stíflu.

 • Einbúavirkjun hefði neikvæð áhrif á dýralíf, svo sem á nálægt fálkaóðal, aðra fugla og fiskgengd. Rannsóknum á áhrifum á straumandarstofninn er ábótavant skv. Náttúrufræðistofnun Íslands.

 • Umhverfisstofnun bendir á að minna rennsli minnki töluvert getu vatnsfallsins til að bera framburð. Ljóst sé því að þann aur sem fljótið flytur að stíflu virkjunarinnar nái það ekki að bera neðan hennar. Náttúrufræðistofnun telur að virkjunin muni að öllum líkindum hafa áhrif á fljótið allt til sjávar.

 • Landsnet hefur upplýst að ekkert liggi fyrir um  tengivirki virkjunarinnar, til að tengja hana við meginflutningskerfið.

 • Áætluð virkjun mun ekki bæta afhendingaröryggi í dalnum eða í sveitarfélaginu enda myndi orkan bara tengjast meginflutningskerfi raforku og ekki tengjast beint dreifinetinu á svæðinu.

 • Þingeyjarsveit er að vinna að umhverfisstefnu sveitarfélagsins. Réttast væri að bíða með að taka ákvörðun um virkjun Skjálfandafljóts þangað til þeirri vinnu lýkur og umræða hefur átt sér stað.

 • Sveitastjórnin hefur bent á tillögur um að Fosshóll við Goðafoss verði ein af gáttum inn í Hálendisþjóðgarð. Virkjun Skjálfandafljóts rímar afar illa við það.

 • Goðafoss var friðlýstur í júní síðastliðnum. Það skýtur mjög skökku við að sveitarfélagið standið að þeirri friðlýsingu en heimili svo stóra virkjun 7 kílómetrum ofan við fossinn.

 • Mikil togstreita hefur myndast í samfélagi Bárðdæla eftir Svartárvirkjunardeiluna og eru áætlanir um virkjun Skjálfandafljóts í dalnum olía á þann eld. Spyrja má um siðferði þess að eigendur einkahlutafélags fari fram með þessum hætti, og þurfi ekki að standa reikningsskil gagnvart almenningi.

 • Umhverfisráðherra og fleiri hafa lýst því yfir að lækka þurfi þröskuld rammáætlunar úr 10 MW til að loka þeirri glufu sem hér og víðar hefur verið notuð til að komast undan faglegri umfjöllun rammaáætlunar.

 • Rammaáætlun 3 sem er nú til umræðu á Alþingi leggur til að Skjálfandafljótið verið verndað.

 • Skipulagsstofnun segir að farvegur Skjálfandafljóts sé óraskaður af mannavöldum frá upptökum og allt til sjávar. Óraskað Skjálfandafljót og samspil þess við Bárðardalshraun myndar einstakt náttúruundur á heimsvísu.

 • Virkjunin væri óafturkræf enda yrðu grafnir gríðarmiklir skurðir í Bárðardalshraunin.

Sjá má auglýsingu um kynningarfund sem haldin var 28. janúar s.l. og nálgast upptöku af honum ásamt tillögunum sjálfum hér: Einbúavirkjun – Kynningarfundur | Þingeyjarsveit (thingeyjarsveit.is) Við vekjum athygli á að sveitarstjórn mun ræða sérstaklega um málið á fundi sínum fimmtudaginn 11. febrúar n.k. kl. 13, sjá https://www.thingeyjarsveit.is/is/frettir-tilkynningar/294-fundur-sveitarstjornar-thingeyjarsveitar