Undanfarna mánuði hefur hópur áhugafólks um umhverfismál og náttúruvernd unnið að endurreisn Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) og var haldinn kynningarfundur um það málefni á Akureyri þann 2. apríl sl. og mættu þar um 90 manns.
Starfsemi SUNN hefur legið að mestu niðri undanfarin ár þar sem enginn gaf kost á sér sem formaður stjórnar. En nú er ákveðið að endurvekja SUNN og hefur sú hugmynd fengið góðan meðbyr. Fyrsti aðalfundur samtakanna í ellefu ár var haldinn 11.maí síðastliðinn á Akureyri. Á fundinn mættu um 40 manns og var þá kosin ný stjórn sem samanstendur af fólki víðsvegar að af Norðurlandi.
Í stjórn eru Harpa Barkardóttir (formaður) frá Svalbarðsströnd, Sævar Þór Halldórsson (Akureyri), Bryndís Pétursdóttir (Þingeyjarsveit), Steinþór Heiðarsson (Tjörnesi), Inga Katrín D. Magnúsdóttir (Skagafirði) og í varastjórn Guðrún Anna Óskarsdóttir (Dalvík) og Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir (Akureyri).
© SUNN 2019 - SAMTÖK UM NÁTTÚRUVERND Á NORÐURLANDI