Menu
Tölvupóstur:sunn@sunn.is

Félagslög SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi

Félagslög SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi

1. Heiti félagsins er: Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN). Aðsetur og varnarþing er á Akureyri. Félagssvæðið er Norðurland.

2. Markmið samtakanna er verndun náttúrulegs umhverfis á láði og legi, jurta- og dýralífs, og að nýting náttúruauðlinda sé með sjálfbærum hætti.

3. Að ofangreindum markmiðum skal unnið í samræmi við gildandi lög, þekkingu og í samvinnu við alla sem hafa náttúruvernd og umhverfismál á stefnuskrá sinni.

4. Verkefni samtakanna eru m.a.að:

  • fræða um náttúruna og verndun hennar, umhverfis- og loftslagsmál
  • fylgjast með hvers konar hættu sem náttúrunni er búin af mannlegum inngripum, vekja athygli á henni, og bregðast við með þeim hætti sem unnt er.
  • stuðla að því að allir hafi sem best skilyrði til að umgangast náttúruna án þess að spilla henni

5. Aðild að samtökunum er tvenns konar: bein aðild og styrktaraðild. Allir einstaklingar, sem vilja vinna að markmiðum samtakanna í þeim anda er að ofan greinir, geta gerst félagar. Einstaklingar, klúbbar, félög, félagasambönd, sveitarfélög, hlutafélög, fyrirtæki og stofnanir geta gerst styrktaraðilar samtakanna. Félögum sem skulda árgjald þrjú ár í senn má fella af félagaskrá. SUNN starfar óháð styrktaraðilum.

6. Félagsgjald einstaklinga og lágmarksgjald styrktaraðila skal ákveða á aðalfundi.

7. Aðalfundur fer með æðsta vald samtakanna. Hann skal halda árlega, að vorlagi. Stjórnin ákveður fundarstað og tíma og auglýsir fundinn með tryggum hætti, a.m.k. með tveggja vikna fyrirvara, og undirbýr hann að öðru leyti (sbr. 8 grein). Atkvæðarétt á aðalfundi hafa allir þeir félagar sem greitt hafa félagsgjald undangengið starfsár. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi nema að lög þessi kveði á um annað. Ef atkvæði falla jöfn skal hlutkesti ráða. Allir þátttakendur hafa málfrelsi og tillögurétt. Styrktaraðilar mega senda áheyrnarfulltrúa á fundinn. Aðalfundurinn er löglegur sé löglega til hans boðað. Í sambandi við hann skal reynt að stuðla að fræðslu um náttúruvernd með fjölbreyttum hætti. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning stjórnar
  7. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál.

8. Stjórn samtakanna skal skipuð fimm fulltrúum: Formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og tveimur til vara. Formaður er kosinn sérstaklega til eins árs í senn. Stjórnin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum. Tveir stjórnarfulltrúar skulu kosnir til tveggja ára í senn á hverjum aðalfundi. Varafulltrúar eru kosnir til eins árs. Leitast skal við að stjórnarfulltrúar komi sem víðast af Norðurlandi. Á aðalfundi skulu kosnir tveir skoðunarfulltrúar ársreikninga. Fjárhagsár samtakanna er almanaksárið. Formaður og gjaldkeri fara með fjárráð samtakanna. Stjórnin fer með málefni samtakanna milli aðalfunda og undirbýr aðalfundi. Heimilt er að halda aðalfund með rafrænum hætti að hluta eða öllu leyti.

9. Samtökin skulu miðla upplýsingum til félaga og styrktaraðila, með fréttabréfi og/eða á vefsíðu, m.a. skal birta starfsskýrslu stjórnarinnar, samþykktir aðalfundar o.fl.

10. Ákvörðun um að leggja samtökin niður skal samþykkja með 2/3 greiddra atkvæða á tveimur aðalfundum í röð. Tillögu um að leggja samtökin niður fylgi tillaga um ráðstöfun eigna þeirra. Sú ráðstöfun skal vera til stofnana eða málefna sem tengjast markmiði samtakanna.

11. Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi samtakanna og þarf til þess 2/3 gildra atkvæða löglegs aðalfundar. Tillögur til lagabreytinga skulu liggja fyrir til kynningar með fundarboði eða með a.m.k. viku fyrirvara.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi SUNN á Akureyri 29. júní 1970 en breytingar gerðar á aðalfundunum 1972, 1978, 2002, 2019 og 2021

29.apríl 2021