Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) styðja áform um stofnun
þjóðgarðs á miðhálendinu og þakka nefnd um stofnun hans fyrir vel unnin störf.
Stofnun slíks þjóðgarðs er í samræmi við stefnu samtakanna sem telja að það
yrði landi og þjóð til sóma að standa vörð miðhálendi Íslands með slíkum hætti.
Verðmæti víðerna miðhálendisins verða að mati samtakanna veigameiri í
alþjóðlegu samhengi eftir því sem fram líða stundir vegna þeirrar heimsmyndar
sem skapast hefur vegna gríðarlegra ögrana á sviði umhverfismála.
Nefndin hefur óskað eftir umsögnum um skilgreiningu á mörkum þjóðgarðs,
skiptingu hans í ólíka verndarflokka sem og aðkomuleiðir og
þjónustumiðstöðvar.
Mörk þjóðgarðs
SUNN telur ekki ástæðu til annars en að miðhálendisþjóðgarður nái um allt
vatnasvið Jökulsár á Fjöllum og Jökulsársgljúfur og styður umsögn Landverndar
þar að lútandi sem og svæðisráðs norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs sem
leggur til að Jökulsárgljúfur verði ekki aðskilin stjórnkerfi verðandi
Miðhálendisþjóðgarðs en njóti engu að síður sérstöðu innan hans. Svæðið, sem er
innan verndarflokks rammaáætlunar, var nýlega friðlýst og telur SUNN
hagsmunum þess enn betur varið innan umræddra þjóðgarðsmarka.
Verndarfélag Svartár og Suðurár sendi inn tillögu þess efnis að Suðurárbotnar,
Suðurá og Svartá í Bárðardal, ásamt tungunni milli ánna tveggja og
Skjálfandafljóts, verði hluti þjóðgarðs á miðhálendinu. SUNN tekur heilshugar
undir vel rökstudda tillögu félagsins og hvetur nefndina til að leggja til að mörk
þjóðgarðsins nái um svæðið, sem hefur að mati SUNN allt til að bera til að
tilheyra slíkum þjóðgarði. Það yrði gríðarlega mikilvægt skref í sögu
náttúruverndar á Norðurlandi ef svæðið nyti verndar samkvæmt lögum. Um er
að ræða dýrmætt landslag og lífríki sem er tengt vistkerfum annarra svæða í
kring svo sem Mývatni, Laxá og Ódáðahrauni.
SUNN hvetur nefndina einnig að leggja til að mörk þjóðgarðs nái um vatnasvið
jökulsáa í Skagafirði sem til stendur að friða á grunni vinnu verkefnisstjórnar um
rammaáætlun.
Verndarflokkar
SUNN vill koma á framfæri því sjónarmiði að stofnun miðhálendisþjóðgarðs
verði kjörið tækifæri til að vinna að sjálfbærri landnýtingu innan svæðisins í
verndarflokkum V og VI, t.d. hvað varðar sauðfjárbeit. Samtökin benda á
mikilvægi þess að sjónarmið náttúruverndar á grunni fagþekkingar verði haft að
leiðarljósi innan stjórnsýslu þjóðgarðsins í öllu samráði um nýtingu þess.
Aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar
SUNN hefur ekki sérstakar athugasemdir við tillögur nefndarinnar í þessum
málaflokki en vill benda á mikilvægi þjóðgarðsgátta á jaðarsvæðum þjóðgarðs
hvað varðar fræðslu og þekkingu, atvinnuuppbyggingar og almennri meðvitund
bæði heimamanna og ferðamanna um verndargildi náttúru- og menningarminja
miðhálendisins.
Þessi umsögn var send af stjórn SUNN í gegnum Samráðsgátt stjórnvalda, sjá samsvarandi pdf skjal
Málið og aðrar umsagnir má finna með því að ýta hér.
© SUNN 2019 - SAMTÖK UM NÁTTÚRUVERND Á NORÐURLANDI