Menu
Tölvupóstur:sunn@sunn.is

Aðalfundur SUNN 2008


Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, krefst þess að fram fari sameiginlegt umhverfismat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar jarðgufuvirkjunar að Þeistareykjum og umhverfisáhrifum annarra virkjana á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum.

Einnig að fram fari mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum að Bakka við Húsavík, umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík og umhverfisáhrifum annarra framkvæmda sem eru bein afleiðing álversins.

Aðalfundur SUNN var haldinn að Rimum í Svarfaðardal um síðustu helgi. Fundurinn hófst með erindi Bjarna E. Guðleifssonar náttúrufræðings, fyrrv. formanns SUNN (1980-1984), sem rifjaði upp fyrstu starfsár samtakanna, tildrög að stofnun þeirra og hugsjónir forkólfanna. Var þetta mjög ánægjuleg og fróðleg umræða og spunnust talsverðar umræður af erindinu. Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Hjartarson sungu og léku nokkur lög, aðallega íslensk vorlög. Að erindi, tónlist, kaffi og umræðum loknum var gengið til venjulegra aðalfundarstarfa. Skýrsla stjórnar var rædd og starf samtakanna framundan.

Úr stjórn áttu að ganga formaður og tveir stjórnarmenn. Enginn gaf sig fram til formennsku í félaginu. Var aðalfundi því frestað og sitja í henni eftirtalin kjörin á aðalfundi í október 2008: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson Akureyri formaður, Kolbrún Gunnarsdóttir Kelduhverfi og Sverrir Thorstensen Akureyri, þá kjörin til fjögurra ára, Valgeir S. Kárason Sauðárkróki og Halldór Valdimarsson Húsavík sem áttu nú að ganga úr stjórn. Í varastjórn til tveggja ára voru á aðalfundi 2006 kjörin þau Gísli Árnason Sauðárkróki, Inga Margrét Árnadóttir Svalbarðsströnd og Ívar Ketilsson Aðaldal. Stjórn samtakanna var falið að boða til framhaldsaðalfundar við hentugleika. Félagsgjald var ákveðið kr. 2500 samanlagt fyrir starfsárin 2008 og 2009 og verður innheimt í einu lagi á árinu 2009.

Allmargar ályktanir voru samþykktar og fylgja þær hér á eftir:

Heildstætt umhverfismat álvers við Húsavík og tengdra framkvæmda

Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Rimum í Svarfaðardal þann 4. maí 2008, krefst þess að fram fari sameiginlegt umhverfismat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar jarðgufuvirkjunar að Þeistareykjum, umhverfisáhrifum annarra virkjana á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum, umhverfisáhrifum háspennulína frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum að Bakka við Húsavík, umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík og umhverfisáhrifum annarra framkvæmda sem eru bein afleiðing álversins.

Greinargerð: Á heimasíðu Þeistareykja ehf. kemur meðal annars fram um markmið jarðgufuvirkjunar að Þeistareykjum: „Í samstarfi við Landsvirkjun er unnið að undirbúningi jarðhitavirkjana á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum. Markmið þess er að kanna hagkvæmni þess að framleiða um 400 MWe af rafmagni fyrir álver á Bakka við Húsavík.” Sérstaklega er vísað í viljayfirlýsingu Alcoa, ríkisstjórnarinnar og Húsavíkurbæjar frá 17. maí 2006 um áframhaldandi rannsóknir á fjárhagslegri hagkvæmni álvers á Norðurlandi með 250 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Sú viljayfirlýsing fylgdi í kjölfar samkomulags frá því í mars 2006 um staðarval fyrir hugsanlegt álver á Bakka við Húsavík.

Sérstaklega er gert ráð fyrir í því lögum um mat á umhverfisáhrifum að „þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega” (2. mgr. 5. gr. laga nr. 106 um mat á umhverfisáhrifum).

Álver, háspennulínur, virkjanir og fleira er í raun og veru ein og sama framkvæmdin og lýsir aðalfundurinn undrun sinni á tregðu framkvæmdaaðila og stjórnvalda gagnvart því að þær verði metnar saman. Eðlilegt ætti að vera að ríkisstjórnin og Húsavíkurbær sæju hagsmuni í slíku sameiginlegu mati. Samstaða ætti að aukast við niðurstöður úr þess háttar mati miðað við mat sem fram fer í litlum bútum.

Dettifossvegur

Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Rimum í Svarfaðardal þann 4. maí 2008, skorar á samgönguráðherra að nýr Dettifossvegur verði lagður sem næst núverandi vegi en ekki með Jökulsá, örstutt frá ánni ofan í hamfarahlaupsfarvegi hennar. Með Jökulsá á Fjöllum eru ummerki eftir stærstu jökulhlaup sem orðið hafa á jörðinni eftir ísöld. Vegagerðin hefur nú boðið út veg í farvegi hlaupanna ofan Dettifoss. Aðalfundurinn bendir á að leiðin með Jökulsá fékk falleinkunn Skipulagsstofnunar við mat á umhverfisáhrifum.

Fundurinn leggur áherslu á að vegurinn vestan Jökulsár verði ferðamannavegur en framtíðarþjóðleiðin verði lögð austan Jökulsár. Hefð er fyrir því að þjóðvegur liggi austan Jökulsár og allt mælir með að svo verði áfram. Austan ár er mun auðveldara að sjá Dettifoss og gljúfrin þar sem þau eru mest allt árið um kring og auðveldara að þjóna ferðamönnum en vestan ár.

Miðhálendi Íslands

Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Rimum í Svarfaðardal þann 4. maí 2008, skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að ekki verði af frekari framkvæmdum á miðhálendi Íslands. Aðalfundur SUNN tekur undir ályktanir Landverndar um að stjórnvöld hefji þegar í stað vinnu við skipulagningu ferðamannaleiða á miðhálendinu og úrbætur á þeim ferðamannavegum, sem þegar eru fyrir hendi.