Menu
Tölvupóstur:sunn@sunn.is

Náttúrubíó á Akureyri


SUNN bauð upp á sýningu á heimildarmyndinni « Artifishal » í Borgarbíói á Akureyri síðastliðinn miðvikudag 6. nóvember. Myndin er framleidd af Patagonia og fjallar um áhrif mannlegra inngripa (t.d. klakstöðva) á villta laxastofna í Bandaríkjunum og Noregi. Hún varpar skýru ljósi á það hve gangur náttúrunnar er viðkvæmur fyrir utanaðkomandi stýringu af ýmsu tagi og veltir upp spurningum um tengsl manns og náttúru – og vægi villtrar náttúru fyrir mannlegt samfélag.

Vel var mætt til þessa fundar og við fengum Jón Kaldal frá Icelandic Wildlife Fund til liðs við okkur. Hann sagði okkur undan og ofan af starfsemi þeirra sem vinnur að því að varpa ljósi á skaðsemi sjókvíaeldis í heiminum og berjast á móti stórfelldum áformum um uppbyggingu þeirra við Íslandsstrendur.

Þó myndin « Artifishal » fjalli ekki um íslenskan veruleika í sjálfu sér var það engu að síður ekki tilviljun að heimsfrumsýning myndarinnar átti sér stað á Íslandi síðastliðið vor. Augu umheimsins hvíla nú á Íslandi og Íslendingum vegna áðurnefndra áforma um uppbyggingu sjókvíaeldis. Síðustu vígi villtra laxastofna í Atlantshafi gætu verið í húfi.  Að ógleymdum dýravelferðarsjónarmiðum, en orðstír sjókvíaeldis hvað þau varðar er vægast sagt varhugaverður.

Það voru Stangaveiðifélag Akureyrar og Landssamband Veiðifélaga sem gerðu okkur kleift að sýna myndina með veglegum hætti í bíó – þar sem hún sómdi sér vel. Við kunnum þeim bestu þakkir fyrir samstarfið.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá viðburðinum