Menu
Tölvupóstur:sunn@sunn.is

Ályktanir aðalfundar SUNN 2004




1. Um hvalveiðar, hvalaskoðun og hvalarannsóknir
Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Húsavík 10. október 2004, fagnar tilurð atvinnugreinar sem byggist á verndun og nýtingu náttúru á sama tíma, þ.e. hvalaskoðun. Breytingar í ferðaþjónustu sumarið 2004 benda til þess að þeim, sem heimsækja landið sérstaklega til að skoða hvali, hafi fækkað. SUNN vara við því að hvalveiðar í atvinnu- eða vísindaskyni geti skaðað uppbyggingu hvalaskoðunar sem atvinnugreinar. SUNN fagna þróun aðferða við hvalarannsóknir sem ekki byggjast á því að drepa dýrin og telja brýnt að fundnar verði aðrar leiðir en sala kjöts til að greiða óhjákvæmilegan rannsóknarkostnað. 

SUNN telja rétt að ríkisstjórnin eða Hafrannsóknastofnunin upplýsi um hvernig kjötið af dýrunum sem veidd voru í rannsóknaskyni sumurin 2003–2004 hefur selst og hvert það hefur selst, m.a. til að hægt sé að bera saman mögulegan hag þjóðarinnar af sjálfbærum hvalveiðum við þann hag sem felst í hvalaskoðun sem atvinnugrein. 

2. Um verndun Mývatns og Laxár
Aðalfundur, SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Húsavík 10. október 2004, leggur áherslu á að nýendurskoðuðum lögum um verndun Mývatns og Laxár verði framfylgt af krafti. SUNN leggja áherslu á að verndaráætlun verði lokið fyrir árslok 2005 eins og lögin kveða á um og að staðið verði að friðlýsingu einstakra staða af metnaði.

3. Um þjóðgarð norðan Vatnajökuls og atvinnustefnu
Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Húsavík 10. október 2004, fagnar metnaðarfullri skýrslu um þjóðgarð norðan Vatnajökuls sem náðst hefur pólítísk samstaða um. Í skýrslunni er gert ráð fyrir þremur samtengdum þjóðgörðum eða verndarsvæðum. SUNN hvetja stjórnvöld til ákvarðana og til þess að leggja fjármuni í fyrstu áfanga verndarsvæðisins. SUNN vara einnig við þess háttar samstarfi við Landsvirkjun og Alcoa um þjóðgarð að þau geti hreykt sér af þjóðgarði og náttúruvernd; fyrirtækin hafa þegar fengið að taka nógu stóra sneið af hálendinu.

SUNN vara alvarlega við þeirri atvinnustefnu að byggja fleiri álver með óafturkræfum virkjanaframkvæmdum. Slík einhæfni atvinnulífs er varhugaverð og slík atvinnustefna er ekki sjálfbær. SUNN telja það ekki ásættanlegt að stjórnmálamenn og fjölmiðlar láti sem það sé meginálitaefnið hvort stóriðjuver rís í Eyjafirði, Skagafirði eða Þingeyjarsýslum. Stjórnvöld verða að taka af skarið um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum og tilfærsla Suðurár og Svartár til að virkja Skjálfandafljót á engan rétt á sér. Náttúruvernd er atvinna sem byggja þarf upp.

SUNN fagna ákvörðun fráfarandi umhverfisráðherra um að stækka Skaftafellsþjóðgarð þannig að hann nái til sunnanverðs Vatnajökuls og Lakagíga. SUNN skora á nýjan umhverfisráðherra, sem þau bjóða velkominn til starfa, að flýta stofnun hins nýja þjóðgarðs. SUNN árétta það álit sitt að hér sé aðeins um að ræða fyrsta áfangann í víðáttumiklum þjóðgarði eða keðju verndarsvæða sem nái frá Ingólfshöfða til Öxarfjarðar, Skeiðarársandi til Skjálfandaflóa.

4. Um virkjanir í skagfirsku Jökulsánum
Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Húsavík 10. október 2004, gagnrýnir þá ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar að setja Villinganesvirkjun á aðalskipulag. Með slíkri virkjun er stefnt í voða hagsmunum héraðsins í ferðaþjónustu (vaxandi flúðasiglingum) og miklum hagsmunum fórnað fyrir litla orku með miklum óafturkræfum skaða á náttúru og umhverfi. SUNN furða sig á því að umhverfisáhrif af Villinganesvirkjun neðan stíflu voru ekki metin á fullnægjandi hátt en þar eru nú tvö friðlýst svæði, annars vegar Austur-Eylendið og hins vegar Skógarnir og Miklavatn. SUNN benda ennfremur á þá staðreynd sem fram kemur í skýrslu Verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að ef Skatastaðavirkjun verður byggð sé ekki raunhæft að byggja líka Villinganesvirkjun.

SUNN telja að Skatastaðavirkjun muni líka hafa skaðleg áhrif á ferðaþjónustu og að arðsemi virkjunarinnar sé lítil, einkum með tilliti til þeirrar orku sem fyrir hendi er á svæðinu frá Blönduvirkjun. Þá skal bent á tiltölulega stuttan líftíma lítils uppistöðulóns Villinganesvirkjunar og grunns uppistöðulóns Skatastaðavirkjunar við Austurbug.

5. Um Náttúrustofu Norðurlands eystra
Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Húsavík 10. október 2004, fagnar því að Náttúrustofa Norðurlands eystra hefur verið stofnuð á Húsavík. Mörg mikilvæg verkefni bíða Náttúrustofunnar sem SUNN eru reiðubúin að leggja lið.